Repúblikanaflokkurinn endurheimti meirihluta sinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í gær en Demókrataflokkurinn hélt velli í öldungadeildinni. Talningu er ekki lokið alls staðar en kosið er um öll 435 sæti fulltrúadeildarinnar og 37 sæti í öldungadeildinni.
Repúblikanar náðu sex þingsætum í öldungadeildinni af demókrötum og 57 sætum í fulltrúardeildinni en samkvæmt nýjustu tölum á BBC eru demókratar með 51 þingsæti í öldungadeildinni en repúblikanar með 46. Í fulltrúadeildinni eru demókratar með 174 þingsæti en repúblikanar með 233 sæti.
Þetta þýðir að repúblikanar geta komið í veg fyrir að ákvarðanir Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, nái fram að ganga í þinginu. Obama er þegar búinn að hringja í John Boehner sem er líklegur til þess að taka við af demókratanaum Nancy Pelosi, sem forseti fulltrúadeildarinnar. Sagðist Obama vonast til þess að þeir myndu ná samkomulagi um ýmis mál í framtíðinni.
Boehner hét því eftir að hafa verið endurkjörinn á þing að hann myndi berjast fyrir umbótum í efnahagsmálum þjóðarinnar með því að draga úr eyðslu og minnka hlut hins opinbera. Hann sagði að kjósendur hafi sent Obama skilaboð um að hann ætti að breyta um stefnu.
Til þess að auka enn erfiðleika Obama missti demókrataflokkurinn öldungadeildarþingsæti sitt í Illinois en þar sat Obama áður en hann var kjörinn forseti.
Samkvæmt BBC voru átökin hins vegar einna mest í Nevada í nótt. Þar barðist demókratinn Harry Reid við frambjóðanda Teboðs-hreyfingar repúblikana, Sharron Angle, og fór Reid með sigur af hólmi. Flestum frambjóðendum teboðsins gekk ekki jafn vel og þeir höfðu vonast til.
Líkt og hér kom fram að framan þá náðu repúblikanar öldungadeildarsæti demókrata í Illinois en einnig í Pennsylvaniu, Wisconsin, Arkansas, Norður- Dakota og Indiana.