Gengi frambjóðenda Repúblikanaflokksins sem tilheyra hinni svonefndu teboðs-hreyfingu hefur ekki verið jafn gott í þingkosningunum vestanhafs og væntingar þeirra voru um fyrir kosningarnar. Talningu atkvæða er ekki lokið en ljóst að frambjóðendur eins og Christine O'Donnell og Sharron Angle höfðu ekki erindi sem erfiði.
Á vef New York Daily News kemur fram að fáir hafi fengið jafn mikla athygli fyrir þessar þingkosningar og fulltrúar sem tilheyra teboðinu en hreyfingin dregur nafn sitt af því þegar andstæðingar breskrar skattheimtu hentu nokkrum teförmum í höfnina í Boston árið 1773.
Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana í síðustu forsetakosningum hefur verið öflugur stuðningsmaður teboðsins en svo virðist sem stuðningur hennar hafi ekki dugað til.
Það vakti mikla athygli er Christine O'Donnell, sigraði í forkosningum í haust þaulreyndan þingmann sem naut stuðnings forystumanna Repúblikanaflokksins, í Delaware. En demókratinn Chris Coons fór með sigur af hólmi í gærkvöldi, fékk 57% atkvæða á meðan O'Donnell fékk einungis 40%.
O'Donnell hafði áður reynt fyrir sér í stjórnmálum án árangurs en hún hefur meðal annars starfað sem stjórnmálaskýrandi hjá Fox News og CNN sjónvarpsstöðvunum.
Hún er alfarið á móti heilbrigðisáformum Obama en forsetinn er sérstakur þyrnir í augum fylgismanna teboðsins. Hún er á móti skattahækkunum, fóstureyðingum og vill hegna þeim harðlega sem ráða til sín ólöglega innflytjendur. Hún hefur jafnframt gagnrýnt þróunarkenningu Darwins og þá sem stunda sjálfsfróun.