Kínverjar ætla sér að spilla veisluhöldum í Noregi í tengslum við afhendingu friðarverðlauna Nóbels, að sögn Aftenposten. Kínverska sendiráðið í Ósló hefur sent út formlegt bréf til fjölda annarra sendiráð í borginni og beðið fulltrúa annarra landa um að sniðganga verðlaunaafhendinguna, sem fram fer 10. desember. Sendiráði Íslands hefur m.a. borist slíkt bréf.
Kínverjar setja þannig talsverðan þrýsting á Evrópuþjóðir um að halda sig fjarri þegar friðarverðlaunin verða veitt fulltrúa kínverska rithöfundarins og aðgerðarsinnans Liu Xiaobo, sem situr í fangelsi í Kína. Líklegt er talið að bræður Liu veiti þeim viðtöku í hans stað.
Kínverjar líta á Liu Xiaobo sem glæpamann og segja að með því að veita honum friðarverðlaunin séu Norðmenn að skipta sér af innanríkismálum í Kína. Aftenposten hefur eftir forsætisráðuneyti Noregs að þar viti menn af bréfasendingum Kínverja. „Við getum allavega sagt fyrir hönd Noregs að Norðmenn munu taka þátt í athöfninni eins og hingað til," segir fjölmiðlafulltrúi ráðuneytisins.
Yfir 1.000 boðskort hafa verið send út vegna athafnarinnar, þar á meðal til allra sendiráða í Ósló. Kínverski sendiherrann er meðal boðsgesta, en harla ólíklegt má telja að hann þekkist boðið. Öll bréf sem Nóbelsverðlaunanefndin hefur sent Kínverjum hafa verið send til baka óopnuð.