Danir tregir til að tilkynna hatursglæpi

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/GSH

Umfang hatursglæpa gegn samkynhneigðum í Danmörku er að öllum líkindum allt að 10 sinnum meira en skýrslur gefa til kynna. Í nýrri skýrslu frá PET, njósnadeild dönsku lögreglunnar, kemur fram að á síðasta ári fékk lögreglan alls 306 tilkynningar um hatursglæpi vegna kynþáttar, kynhneigðar eða stjórnamálaskoðana.

Það er fjölgun frá árinu á undan, en samt fjarri raunveruleikanum og væri talan mun hærri ef fórnarlömb árásanna væru duglegri að leita til lögreglu, að sögn Kenneth Engberg, sem er talsmaður baráttuhóps samkynhneigðra gegn hatursglæpum. „Nú ríður á að við tökum okkur á og verðum duglegri að tilkynna lögreglu um árásir, því ef við gerum það ekki þá gerum við PET erfiðara fyrir að fyrirbyggja þessa glæpi," segir Engberg í viðtali við Politiken.

Engberg segir að skráð tilfelli hatursglæpa í Danmörku séu bara toppurinn á ísjakanum. Hann bendir á að í Svíþjóð hafi 4.700 hatursglæpir verið tilkynntir til lögreglu. Miðað við höfðatölu ættu megi því áætla að tilfellin séu a.m.k. 3.000 í Danmörku.

Af þeim 306 hatursglæpum sem tilkynntir voru í Danmörku í fyrra mátti rekja 73 til kynnáttahaturs, 64 árásir voru gerðar vegna stjórnmálaskoðana, 21 vegna trúar og 17 vegna kynhneigðar. Þetta er í fyrsta skipti sem PET tekur sérstaklega saman yfirlit um hatursglæpi og segir yfirmaður hennar að gefa þurfi nánari gaum að þessari tegund ofbeldisglæpa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka