Víðtækar njósnir Bandaríkjamanna

Frá miðborg Ósló.
Frá miðborg Ósló.

Eftirlit með skólum, umferðarmiðstöðvum og grunsamlegum útlendingum í útlöndum hefur verið hluti af hefðbundinni öryggisstarfsemi Bandaríkjanna frá byrjun aldarinnar.

Fram kom í fréttum TV2 í Noregi í gær, að bandaríska sendiráðið í Ósló hefði látið fylgjast með á annað hundrað grunsamlegum Norðmönnum á undanförnum árum. Hefðu 15-20 norskir fyrrverandi lögregluþjónar verið ráðnir til þessara starfa. 

Fram kom að Bandaríkjamenn hefðu sett upp slíkar eftirlitsmiðstöðvar eftir að hryðjuverkaárásir voru gerðar á bandarísku sendiráðin í Nairobi og Dar-es-Salaam árið 1998.

Á vef Aftenposten er haft eftir Tim Moore, talsmanni bandaríska sendiráðsins, að Bandaríkjastjórn vinni almennt náið með gistilöndunum til að tryggja öryggi bandarískra sendiráða víðs vegar um heiminn.

Norska utanríkisráðuneytið kallaði bandaríska sendiherrann á fund í dag og spurðist fyrir um málið. Eftir fundinn sagði Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra, að ekki hefðu fengist svör við öllum spurningum og í ráðuneytinu könnuðust menn ekki við að hafa veitt samþykki fyrir slíku eftirliti.

Moore sagði, að öllum fyrirspurnum, sem norsk stjórnvöld kunni að vilja beina til sendiráðsins vegna frétta TV2 verði svarað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert