Alls hafa 77 látist vegna eldgossins í Merapi eldfjallinu á Jövu í dag en gosið í dag er það kröftugasta í meira en eina öld í fjallinu. Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín og allt flug liggur niðri á svæðinu en gríðarmikil aska og önnur gosefni koma upp úr gíg fjallsins.
Myrkur liggur yfir allri eyjunni og ríkir mikil skelfing meðal þeirra sem eru að reyna að komast sem lengst í burtu frá eldgosinu en alls eru 120 látnir frá því eldfjallið hóf að gjósa þann 26. október sl. Daginn áður létust rúmlega 400 vegna flóðbylgju sem gekk yfir eyjaklasa nálægt Súmötru eftir kröftugan neðansjávarjarðskjálfta.