Allir þeir 68 sem voru um borð í kúbanskri flugvél er brotlenti á Kúbu í nótt létust. Jafnframt létust allir um borð í pakistanskri flugvél sem fórst einnig í nótt. 22 voru um borð í þeirri vél. 28 útlendingar voru um borð í vélinni sem fórst á Kúbu, þar af nokkrir Evrópubúar.
Kúbanska flugvélin var í eigu ríkisflugfélagsins Aerocaribbean en hún fór frá Santiago de Cuba seint í gær og var á leið til höfuðborgarinnar Havana.
Tíu farþegar frá Evrópu voru um borð, meðal annars frá Hollandi, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Ítalíu og Spáni. Auk þess voru níu frá Argentínu, sjö frá Mexíkó, einn frá Venesúela og einn frá Japan, samkvæmt upplýsingum fjölmiðla á Kúbu.
Vélin sem fórst við skömmu eftir flugtak frá flugvellinum í Karachi var leiguflugvél. Samkvæmt upplýsingum BBC frá pakistönskum flugmálayfirvöldum virðist sem um vélarbilun hafi verið að ræða. Talið er að vélin hafi verið að flytja starfsmenn olíufélags að olíulindum í Sindh héraði.