Rekinn frá MSNBC fyrir að styrkja demókrata

Keith Olbermann
Keith Olbermann

Bandaríska kapalsjónvarpsstöðin MSNBC vék í dag einum vinsælasta sjónvarpsþáttastjórnanda sínum úr starfi fyrir að styrkja kosningabaráttu þriggja frambjóðenda Demókrataflokksins fyrir þingkosningarnar.

Sjónvarpsmanninum, Keith Olbermann, var vikið frá störfum um óákveðinn tíma þar sem hann braut siðareglur stöðvarinnar með framferði sínu. Olbermann hefur viðurkennt að hann hafi látið um 2.400 Bandaríkjadali renna í kosningasjóði tveggja frambjóðenda í Arizona og eins í Kentucky. MSNBC heimilar blaðamönnum sínum ekkert framferði sem „stofnar í hættu stöðu þeirra sem hlutlausir blaðamenn" þar á meðal „með þátttöku eða stuðningi við kosningabaráttu".

Olberman stjórnar þættinum „Countdown" eða „Niðurtalning" sem er einn vinsælasti þátturinn á MSNBC. Hann er ekki fyrsti bandaríski fjölmiðlamaðurinn sem kemur sér í vandræði upp á síðkastið, því í síðasta mánuði var fréttamaðurinn Juan Williams rekinn af National Public Radio fyrir að segjast verða stressaður þegar hann sér fólk klætt eins og múslíma í flugvélum. Þá var fréttalesari CNN, Rich Sanchez, rekinn í október eftir að hann kallaði sjónvarpsskemmtikraft hálfvita og gaf til kynna að sjónvarpsiðnaðurinn allur væri undir stjórn Gyðinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert