Rúmlega 28 þúsund manns höfðu í morgun skráð nöfn sín í undirskriftasöfnun á netinu gegn hvalveiðum Íslendinga. „Stöðvið grimmilega hvalaslátrun Íslands“ er yfirskrift undirskriftasöfnunarinnar. Samtökin International Fund for Animal Welfare standa að söfnun undirskriftanna.
Því er beint til Hjálmars W. Hannessonar, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, að þeir sem skrifa undir skjalið á netinu vilji að Ísland hætti hvalveiðum og stuðli fremur að því að „varðveita dýrmæta hvalaskoðunarþjónustu sína“.
Í formála söfnunarinnar segir að íslenskir hvalveiðimenn hafi á þessu ári drepið 148 skíðishvali og 60 hrefnur í útrýmingarhættu á sömu slóðum og ferðamenn leggja leið sína til að dást að þessum risavöxnu skepnum.