Yfir 70 létust í árásum á moskur

Yfir sjötíu manns létust í tveimur árásum á moskur í Pakistan í dag. Bæði bandarísk stjórnvöld og Evrópusambandið hafa fordæmt árásirnar og segja þær ófyrirleitnar árásir á saklaust fólk. Fjölmargir eru særðir, þarf af margir alvarlega.

Fyrri árásin var sjálfsvígsárás í mosku í bænum Darra Adam Khel í norðvesturhluta landsins. Var hún gerð er föstudagsbænum var að ljúka í moskunni og féll stór hluti þaks moskunnar við kraftinn í sprengjunni. Einungis ein hlið moskunnar stendur enn og er óttast að enn séu einhverjir grafnir undir rústunum.

Fjölmörg hús í nágrenni moskunnar skemmdust og eitthvað mannfall var þar. Meðal þeirra sem létust í árásinni voru 11 börn. Er þetta mannskæðasta árásin í Pakistan í tvo mánuði.

Var hús Wali Mohammad, leiðtoga hreyfingar sem hefur barist gegn talibönum illa úti í árásinni. Þrátt fyrir að talibanar neiti því að bera ábyrgð á tilræðinu þá telja ýmsir í öldungaráði bæjarins að þeir hafi haft með árásina að gera og henni hafi verið ætlað að refsa Mohammad fyrir að standa uppi í hárinu á hreyfingu þeirra.

Í síðari árásinni var handsprengju varpað inn í mosku og létust fjórir hið minnsta í þeirri árás. Tugir særðust í þeirri árás og er óttast að einhverjir þeirra eigi eftir að látast af sárum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert