Fjöldagröf uppgötvaðist í Rúmeníu í dag, með líkum um 100 gyðinga sem myrtir voru í helförinni. Gröfin fannst inni í skógi í um 350 km fjarlægð norðaustur af höfuðborginni, Búkarest. Talið er að í gröfinni sé að finna lík manna, kvenna og barna sem skotin voru til bana árið 1941 af rúmenskum hersveitum sem studdu stefnu Nasista gegn gyðingum.
Um 380.000 gyðingar voru drepnir í Rúmeníu á meðan heimsstyrjöldinni síðari stóð. Fjöldagröfin fannst nærri þorpinu Popricani eftir ábendingar frá íbúum svæðisins, sem urðu vitni að fjöldamorðunum. „Við höfum grafið upp 16 lík það sem af er en þetta er bara upphafið því gröfin er mjög djúp og við erum rétt að krafsa í yfirborðinu," hefur BBC eftir Adrian Cioflanca, rúmenskum sagnfræðingi sem tekur þátt í uppgreftrinum.
Þetta er aðeins önnur fjöldagröfin sem finnst í Rúmeníu síðan helförinni lauk árið 1945 og má ætla að fleiri séu enn ófundnar.