85 hafa látist síðustu daga af völdum nýjasta goskippsins í eldfjallinu Merapi á Indónesíu. Fjöldi manna hefur auk þess særst alvarlegum brunasárum, að sögn yfirvalda. Margir hinna látnu bjuggu í þorpinu Argomulyo, um 18 kílómetrum frá gíg eldfjallsins. Þorpsbúar létust þegar brennheitt og banvænt öskuský gekk yfir þorpið snemma í gærmorgun.
Heildarfjöldi látinna er með þessum síðustu dauðsföllum orðinn 128 síðan eldfjallið, sem er það virkasta á Indónesíu, lét fyrst á sér kræla þann 26. október síðastliðinn. 289 manns hafa slasast síðustu daga. Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín og mikil skelfing ríkir meðal íbúa sem reyna að komast í öruggt skjól undan hamförunum.