Atvinnulausir vinni launalaust

Iain Duncan Smith, velferðarráðherra samsteypustjórnar Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata.
Iain Duncan Smith, velferðarráðherra samsteypustjórnar Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata. AP

Bresk stjórnvöld hyggjast gera atvinnulausum að vinna launalaust í allt að fjórar vikur í senn. Geri þeir það ekki eiga þeir á hættu að missa rétt á atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði. Reiknað er með að Iain Duncan Smith, velferðarráðherra samsteypustjórnarinnar, kynni tillögur þessa efnis í vikunni.

Stjórnin glímir við mikinn fjárlagahalla, og hefur neyðst til að skera niður á mörgum sviðum. Aðgerðirnar nú eru liður í því að lækka útgjöld til velferðarmála, en reiknað er með því að þær verði umdeildar.

Tillögurnar nú gera ráð fyrir því að þeir sem eru atvinnulausir vinni 30 tíma vinnuviku, í allt að fjögurra vikna lotum, hjá fyrirtækjum eða í verkefnum sem „gagnast samfélaginu.“ Fallist þeir ekki á það verða þeir beittir „alvarlegum“ fjárhagslegum refsingum, svo sem sviptingu atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.

Heimildarmaður enska dagblaðsins Telegraph segir að „ýta þurfi við“ mörgum svo þeir tileinki sér nauðsynlegt hugarfar hins vinnandi manns. „Þetta snýst fyrst og fremst um það að koma þeim aftur inn í þá rútínu sem fylgir því að vera í vinnu. Það hefur aftur þau áhrif að þeir verði álitlegri kostur í augum hugsanlegra vinnuveitenda.“

Um fimm milljón manns þiggja nú atvinnuleysisbætur á Bretlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert