George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, heimilaði starfsmönnum bandarísku leyniþjónustunnar CIA að beita svonefndum vatnspyntingum við yfirheyrslur fanga í stríðinu gegn hryðjuverkamönnum. Bush upplýsir þetta í sjálfsævisögu sinni, sem kemur út í næstu viku.
Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN fjallaði um helgina um bókina og segir að þessar upplýsingar hafi leitt til þess að nýjar kröfur hafi komið fram um að Bush verði sóttur til saka fyrir mannréttindabrot. Bush segist í bókinni hafa ákveðið að ekki yrði beitt tveimur yfirheyrsluaðferðum, sem gengu lengra en upplýsir ekki hvaða aðferðir það eru.
Í bókinni lýsir Bush því hvernig hann tók ákvörðun um vatnspyntingar en þegar þeim er beitt er fanginn látinn liggja á bakinu, klút er haldið fyrir vitum og vatni hellt á klútinn þannig að fanganum finnst hann vera að drukkna.
„Sérfræðingar CIA gerði lista yfir yfirheyrsluaðferðir... Samkvæmt skipun minni fóru lögmenn dómsmálaráðuneytisins og CIA vandlega yfir lögfræðilega þætti málsins. Áætlunin um hertar yfirheyrsluaðferðir samræmdust stjórnarskránni og öllum viðeigandi lögum, líka þeim sem banna pyntingar.
Mér fannst tvær aðferðir ganga of langt, jafnvel þótt þær væru löglegar. Ég skipaði CIA að nota þær ekki. Önnur tækni er vatnsbrettaaðferð þar sem líkt er eftir drukknun. Án efa er þetta harðneskjuleg aðferð en læknisfræðilegir sérfræðingar fullvissuðu CIA að hún ylli engum varanlegum skaða."
Bush segist hafa vitað að á endanum myndu upplýsingar um að þessum yfirheyrsluaðferðum væri beitt koma upp á yfirborðið og valda deilum. Hins vegar hafi hann ekki átt annars úrskosti. „Hefði ég ekki heimilað að vatnsbrettaaðferð yrði beitt á háttsetta leiðtoga al-Qaeda hefði hættan á árásum á landið aukist. Í kjölfar árásanna 9. september 2001 vildi ég ekki taka þá áhættu," segir Bush.
Hann segir, að þessar nýju yfirheyrsluaðferðir hafi borið árangur. Tekist hefði að afla upplýsinga um uppbyggingu og aðgerðir al-Qaeda og það leiddi til þess að Ramzi bin al Shibh, einn þeirra sem skipulögðu hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin, var handtekinn í september 2002.
Bush segist raunar hafa fengið stuðning við ákvörðun sína frá einum þeirra, sem handtekinn var, grunaður um hryðjuverkastarfsemi, manni að nafni Abu Zubaydah.
„Skilningur hans á íslamstrú var sá, að hann þyrfti aðeins að þola yfirheyrslur upp að ákveðnu marki. Vatnsbrettayfirheyrslur voru tækni, sem gerði honum kleift að ná þeim þröskuldi, að uppfylla trúarlega skyldu sína og fallast síðan á að eiga samvinnu."
Upplýsingar, sem Abu Zubaydah og fleiri veittu leiddu til þess, að Khalid Sheikh Mohammed var handtekinn. Í fórum Mohammeds fundust síðan gögn sem bentu til þess að verið væri að undirbúa frekari árásir á Bandaríkin.
Bush segir í bókinni, George Tenet, forstjóri CIA, hafi beðið leyfis um að nota sérstakar yfirheyrsluaðferðir, þar á meðal vatnspyntingar, við yfirheyrslur á Mohammed.
Síðan segir Bush: „Ég hugsaði um fund minn með ekkju Danny Pearl, sem bar barn hans undir belti þegar hann var myrtur. Ég hugsaði um þá 2971, sem al-Qaeda rændi frá fjölskyldum sínum 11. september. Og ég hugsaði um þá skyldu mína að verja land mitt fyrir fleiri hryðjuverkum.
„Það geturðu sveiað þér upp á," sagði ég."