Benedikt XVI páfi vígði í dag hina heimsþekktu kirkju La Sagrada Familia, í Barcelona. Bygging kirkjunnar hófst fyrir 128 árum, og er í raun ekki endanlega lokið þó hún hafi nú verið vígð. Tugþúsundir pílagríma fögnuðu páfa, en nokkuð var um mótmæli við sama tilefni. Samkynhneigðir mótmæltu afstöðu kirkjunnar til réttinda þeirra.
La Sagrada Familia, kirkja hinnar heilögu fjölskyldu, var teiknuð af arkitektinum Antoni Gaudi, og er af mörgum talin hans helsta meistaraverk. Páfi blessaði altari kirkjunnar undir söng 800 manna kórs í messu nú í morgun. Um 6500 manns voru viðstaddir athöfnina.
Páfinn segir hina nývígðu kirkju tákna heilagleika fjölskyldunnar, og hún eigi að veita Spánverjum innblástur í baráttunni gegn stefnu Spánar. Ríkisstjórn Zapateros hefur leyft samkynhneigðum að gifta sig, einfaldað ferli við hjónaskilnaði og aukið aðgengi kvenna að fóstureyðingum. Þetta eru allt mál sem kaþólska kirkjan hefur sett sig upp á móti.
Um 200 samkynhneigðir kysstust í fimm mínútur í svokölluðum „kossamótmælum,“ sem blásið var til vegna komu páfans. Sumir mótmælendanna tóku sér hlé frá atlotunum til að hrópa ókvæðisorð að páfanum þegar hann átti leið hjá, sögðu honum að „hypja sig“ og að hann væri barnaníðingur.