1.300 nýbyggingar í Austur-Jerúsalem

Byggingaframkvæmdir í Har Homa hverfinu í Austur-Jerúsalem.
Byggingaframkvæmdir í Har Homa hverfinu í Austur-Jerúsalem. BAZ RATNER

Ísraelsmenn kynntu í dag áætlanir um að reisa tæplega 1.300 heimili fyrir landnema af Gyðingaættum í Austur-Jerúsalem. Nýbyggingar í landnemabyggðunum eru bannaðar samkvæmt alþjóðalögum og eru friðarviðræðurnar sem hófust nýlega aftur milli Ísraels- og Palestínumanna í pattstöðu vegna málsins.

Yfirlýsingin um byggingaráætlunina kom samhliða opinberri heimsókn Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, til Bandaríkjanna í dag. Palestínsk yfirvöld lýsa yfirlýsingunni sem tilraun Ísraelsmanna til að rústa friðarviðræðunum.

Innanríkisráðuneytið í Ísrael segir að endanlega sé búið að samþykkja byggingu 1.000 nýrra heimila í landnemabyggðinni Har Homa, nærri palestínsku borginni Betlehem, og 300 heimili til viðbótar á svæðinu Ramot. BBC hefur eftir talsmanni ráðuneytisins að verið sé að kynna áætlunina til að gefa almenning tíma til að koma með athugasemdir, en líklega muni einhver ár líða áður en framkvæmdir hefjist.

Alþjóðasamfélagið skilgreinir Austur-Jerúsalem sem palestínskt land, en Ísraelsmenn líta svo á að svæðið tilheyri þeim. Vesturbakkinn, þar á meðal Austur-Jerúsalem, hefur verið hernuminn af Ísraelsmönnum síðan 1967 og yfir 5.000 Gyðingar eru búsettir þar í um 100 húsum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert