Íhugaði að ráðast á Íran og Sýrland

George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Reuters

George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fyrirskipaði bandaríska varnarmálaráðuneytinu að undirbúa árás á íranskar kjarnorkustöðvar auk þess sem hann íhugaði að gera leynilega árás á Sýrland. Þetta segir Bush í endurminningum sínum, sem verða gefnar út í Bandaríkjunum á morgun. 

„Ég skipaði Pentagon [bandaríska varnarmálaráðuneytinu] að skoða hvað væri nauðsynlegt að gera fyrir árás,“ skrifar Bush í bókinni Decision Points, sem breska dagblaðið Guardian hefur fengið eintak af.

„Þetta hefði verið gert til að stöðva sprengjuklukkuna, að minnsta kosti tímabundið.“

Enn meira ófriðarbál hefði þá logað í Mið-Austurlöndum ef ráðist hefði verið á Írana, sem hefðu svarað árásinni með því að loka olíuleiðslum og senda uppreisnarmenn til Íraks, Afganistans og Líbanons.

Að beiðni Ísraela ræddi Bush jafnframt við þjóðaröryggisráðgjafa sína hvort Bandaríkin ættu að gera loftárás á meint sýrlenskt kjarnorkuver eða senda sérsveitarmenn í leynilega árásarferð.

Ævisagan verður gefin út í Bandaríkjunum á morgun. Þar er reynt að styrkja ímynd og orðspor Bush með því að greina frá hans hlið í mörgum umdeildum málum sem hann stóð frammi fyrir, m.a. varðandi stríðsrekstur í Írak og Afganistan, eftirköst fellibyljarins Katrínar sem olli mikilli eyðileggingu í New Orleans, fjármálahrunið á Wall Street og pyntingar í Guantanamo fangabúðunum á Kúbu.

„Sama hver niðurstaða minnar forsetatíðar verður, þá er ég sáttur við þá staðreynd að ég mun ekki vera á staðnum til að heyra hana. Það er sögunnar að ákveða það.“

Umfjöllun Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert