Barack Obama Bandaríkjaforseti styður umsókn Indlands um fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Obama flutti ávarp við lok þriggja daga heimsóknar sinnar til Indlands í dag og bar þá lof á framþróun indverska ríkisins.
Víst er að Indverjar taka stuðningi Obama fagnandi því þeir hafa í áraraðir reynt árangurslaust að fá fastasæti í öryggisráði SÞ. Sérfræðingar segja þó að þetta þýði ekki að Indverjar eigi öruggt sæti í vændum heldur gæti það tekið mörg ár enn. Að sögn BBC sendur Pakistanar frá sér yfirlýsingu með hraði eftir ávarp Obama og sögðu að Bandaríkin ættu ekki að leggja stuðning sinn við „valdastjórnmál".
Heimsókn Obama til Indlands lauk í dag en 10 daga ferð hans um Asíu heldur áfram og næst heimsækir hann Indónesíu, Suður-Kóreu og Japan.