Frakkar ræða nú við nágrannaþjóðir sínar í Evrópu um bréf, sem kínversk stjórnvöld hafa sent Evrópuríkjum og hvatt þau til að sniðganga athöfnina þegar andófsmaðurinn Liu Xiaobo fær formlega afhent friðarverðlaun Nóbels í Ósló í desember. Íslensk stjórnvöld ætla að senda fulltrúa sinn þangað.
„Frakkar ráðfæra sig nú við vini sína í Evrópu til að koma sameiginlegum viðbrögðum á framfæri,“ segir Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, í samtali við útvarpsstöðina RTL í dag.
Hann gerir ráð fyrir sameiginlegu svari og að ríkin muni þekkjast boð á verðlaunaafhendinguna. „Samevrópskt svar yrði mun sterkara“ segir hann.
Kínverjar brugðust reiðir við þegar nóbelsefndin ákvað að veita Liu, sem berst fyrir mannréttindum, friðarverðlaunin. Liu verður ekki viðstaddur þegar verðlaunin verða afhent því hann var dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir undirróður.
Sendifulltrúar nokkurra ríkja greindu frá því í síðustu viku að sendiráð Kína í Ósló hafi sent bréf til sendiráða vestrænna ríkja þar sem þau eru vöruð við afleiðingum þess að vera viðstödd verðlaunaathöfnina, sem fram fer í Ósló 10. desember nk.
Cui Tiankai, aðstoðarutanríkisráðherra Kína, sagði á föstudag að stjórnvöld viðkomandi ríkja yrðu að taka afleiðingunum lýsi þau stuðningi við Liu.
Íslendingar, Svíar, Danir, Finnar, Hollendingar, Belgar, Austurríkismenn, Tékkar, Slóvakar, Eistlendingar og Litháar ætla að senda fulltrúa sína á hátíðina þrátt fyrir yfirlýsingar Kínverja.
Þá hefur talsmaður breska utanríkisráðuneytisins sagt að sendiherra Bretlands muni vera viðstaddur athöfnina. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun þá vera staddur í opinberri heimsókn í Kína.
Þjóðverjar hafa einnig greint frá því að fulltrúi sendiráðsins verði viðstaddur.
Frakkar eiga hins vegar eftir að svara. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti tók í síðustu viku á móti Hu Jintao, forseta Kína, til að styrkja tengsl ríkjanna. Þá voru gerðir viðskiptasamningar upp á marga milljarða evra.
Mannréttindahópar og andstæðingar Frakklandsforseta hafa gagnrýnt hann fyrir að lýsa ekki stuðningi við Liu. Sarkozy segis hins vegar hafa rætt mannréttindamál við forseta Kína án þess að útskýra það nánar.