Ný skoðanakönnun, sem norska ríkisútvarpið NRK hefur látið gera, sýnir að andstaða fer vaxandi við hugsanlega aðild Noregs að Evrópusambandinu. Samkvæmt könnuninni eru 62% landsmanna andvíg aðild landsins að ESB, 24% eru fylgjandi aðild en 13,2% tóku ekki afstöðu til könnunarinnar.
Í könnuninni voru þátttakendur spurðir hvort þeir myndu segja já eða nei ef fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild. NRK segir, að undanfarið ár hafi þeim sem segjast myndu svara neitandi fjölgað um 10 prósentur og þeim sem segjast myndu svara já hafi fækkað um sama hlutfall.
Á vef NRK er haft eftir Torunn Husvik, varaformanni samtaka norskra andstæðinga ESB-aðildar, að fjármálakreppan sé helsta ástæða þess að æ fleiri verða andsnúnir Evrópusambandinu. Hún segir það goðsögn, að ástæðan sé sú að Norðmenn vilji hafa olíuauðinn út af fyrir sig.
NRK hefur eftir Trygve Nordby, framkvæmdastjóra norsku Evrópusamtakanna, að þessar tölur komi honum ekki á óvart. Margir Norðmenn telji að EES-samningurinn sé fullnægjandi fyrir Noreg og einnig sjái Norðmenn sér ekki hag í því að tengjast Evrópusambandinu á sama tíma og mörg ESB-ríki berjist við afleiðingar fjármálakreppunnar. Þetta muni hins vegar breytast þegar frá líður.
„Ef Ísland nær góðum samningi um sjávarútvegsmál og ef Danmörk og Svíþjóð taka upp evru gæti það haft áhrif á efnahag okkar, sem byggist á gasi. Það gæti leitt til þess, að okkur finnist við þurfa að styrkja grundvöll hagkerfisins og tryggja framtíðina betur," segir hann.