Braust inn í tölvupóst Palin

Sarah Palin.
Sarah Palin. Reuters

22 ára gamall karlmaður, sem braust inn í tölvupóst bandaríska stjórnmálamannsins Söruh Palin, var í dag dæmdur í árs fangelsi auk eins dags. Dómarinn mælti með því, að maðurinn fengi að afplána dóminn á áfangaheimili frekar en fangelsi.  

David Kernell, sem býr í Tennessee, gat upp á svörum Palin við spurningum um aðgangsorð hennar hjá netveitunni Yahoo! og komst þannig inn í tölvupóst hennar árið 2008. Málið komst upp þegar Kernell fjallaði um innihald póstanna á samskiptasíðum og lögregla rakti slóðina til hans. 

Verjendur Kernells sögðu að hann hefði gerst sekur um ungæðislegan hrekk.  Palin, sem var frambjóðandi Repúblikanaflokksins í embætti varaforseta Bandaríkjanna árið 2008, líkti málinu hins vegar við Watergate-innbrotið árið 1972, sem leiddi til afsagnar Richards Nixons, þáverandi forseta.

Kernell, sem er sonur þingmanns á ríkisþingi Tennessee, bað Palin afsökunar eftir að dómurinn féll í dag.

Almennt er talið, að Palin sé að undirbúa framboð í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2012. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert