Draumur 78 ára gamals kaþólsks prests í Póllandi um að reisa stærstu Jesústyttu heims í pólskum bæ hefur nú ræst, fimm árum eftir að hafist var handa við verkið.
Hæð styttunnar sjálfrar er 33 metrar, eða einn metri fyrir hvert ár sem Jesús lifði. Að auki er hún með 3,4 metra háa gyllta kórónu og stallurinn er tæpir sextán metrar, þannig að heildarhæðin er 52 metrar.
Verkinu var lokið um síðustu helgi þegar risastór krani var notaður til að koma höfðinu og höndunum á styttuna. Áður hafði verið reynt að setja styttuna saman með minni krana en hann reyndist ekki vera verkinu vaxinn.
Presturinn Sylwester Zawadzki, sem hefur sest í helgan stein, átti frumkvæði að verkinu. Bæjarbúarnir vona að styttan laði ferðamenn að bænum og auðveldi þeim að fjármagna viðgerðir á gömlum byggingum í miðbænum.
Styttan er tæpum tólf metrum hærri en stytta í Bólivíu sem er nú næststærsta Jesústytta í heiminum og ívið hærri en styttan fræga af frelsaranum Kristi í Rio de Janeiro.
Pólska Jesústyttan verður vígð þarnæsta sunnudag.
bogi@mbl.is