Írar í viðræðum við ESB um fjárhagsaðstoð

Kona á götu í Dublin.
Kona á götu í Dublin. Reuters

Breska ríkisútvarpið BBC fullyrðir, að hafnar séu undirbúningsviðræður milli írskra stjórnvalda og Evrópusambandsins um að ESB veiti Írum fjárhagslegan stuðning. Ekki sé lengur spurning um hvort heldur hvenær Írar leiti á náðir sambandsins um lánafyrirgreiðslu. 

Að sögn BBC gera fyrstu áætlanir ráð fyrir því, að Írar þurfi að fá á milli 60-80 milljarða evra að láni, jafnvirði 9-12 þúsund milljarða króna.

Írskir embættismenn hafa, að sögn BBC ekki neitað því, að þeir eigi í viðræðum um að fá úthlutað úr sérsökum neyðarsjóði ESB, en ekki heldur viljað staðfesta það. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB hafa ekki viljað tjá sig um málið. 

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði í dag að sjóðurinn hefði ekki verið beðinn um að veita Írum aðstoð.

Grikkir fengu sérstaka fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í maí en þá vofðu yfir háar afborganir af erlendum lánum. BBC segir, að Írar þurfi ekki að leita á náðir markaðarins með skuldabréfaútgáfu fyrr en á næsta ár. En verðbréfamiðlarar séu ekki sannfærðir um, að Írum muni takast að draga nægilega úr fjárlagahalla fyrir þann tíma. Því er skuldatryggingarálag ríkissjóðs landsins nú himinhátt, eða 8,3%.  

Stjórnvöld í Dublin vonuðu, að með því að draga úr útgjöldum og hækka skatta í fjárlögum fyrir næsta ár tækist þeim að róa markaðinn og stuðla að lækkandi skuldatryggingarálagi. Það hefur ekki gengið eftir.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert