Andstæðingar fóstureyðinga á Spáni mótmæla nú nýjum og frjálslegri lögum um fóstureyðingar sem tekin voru í gildi þar í landi fyrir fjórum mánuðum. Þeir krefjast þess að hjálp verði veitt þeim konum sem sjá sig tilneyddar til þess að enda meðgöngu sína.
Hundruð manna söfnuðust saman fyrir utan alþjóðlega ráðstefnu um réttindi til fóstureyðinga í Sevilla á Spáni í októbermánuði og hrópuðu „morðingjar“. Benedikt páfi sextándi gagnrýndi lögin er hann heimsótti landið í byrjun þessa mánaðar.
Læknastofur sem framkvæma fóstureyðingar og stuðningsmenn þeirra segjast finna fyrir andúð fólksins í sinn garð.
Samkvæmt nýju lögunum er konum nú heimilt að gangast undir fóstureyðingu upp undir 14.viku. Þá er fóstureyðing leyfileg upp að 22.viku ef meðgangan er talin stofna heilsu móðurinnar í hættu, eða ef fóstrið glímir við alvarleg veikindi.
Samkvæmt eldri lögum á Spáni voru fóstureyðingar aðeins leyfðar við
þrenns konar aðstæður - eftir þungun af völdum nauðgunar, þegar
genagalli finnst í fóstri og þegar meðganga er talin stofna heilsu móður
í hættu. Þó lögin virtust ströng voru þau ekki sögð virka þannig í
reynd, en margar spænskar konur fengu t.d. samþykkta fóstureyðingu
á grundvelli þess að meðgangan gæti verið hættuleg andlegri heilsu
þeirra.