Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, skipaði í morgun François Fillon forsætisráðherra á ný en Fillon sagði af sér síðdegis í gær ásamt ríkisstjórn sinni. Fillon mun nú útnefna nýja ráðherra. Talið er að ráðherrum verði fækkað úr 37 í 26 en jafnframt muni fleiri ráðherrar koma úr UMP, stjórnmálaflokki Sarkozys.
Ekki er búist við að Bernard Kouchner verði áfram utanríkisráðherra en hann tengist franska Sósíalistaflokknum. Alain Juppé, fyrrverandi forsætisráðherra, staðfesti í gær að hann reiknaði með að taka við embætti varnarmálaráðherra.
Um tíma voru vangaveltur um að Jean-Louis Borloo, sem gegnt hefur embætti umhverfisráðherra, myndi taka við af Fillon sem forsætisráðherra en af því varð ekki. Aðstoðarmenn Borloo segja, að honum hafi verið boðið að taka við embætti utanríkisráðherra eða dómsmálaráðherra. Einnig komi til greina að hann verði áfram umhverfisráðherra og völd ráðuneytisins verði aukin.