Mona Salin hættir

Mona Salin hættir sem leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins.
Mona Salin hættir sem leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins. Reuters

Mona Salin hættir sem leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins. Þetta kom fram á blaðamannafundi síðdegis en fyrr í dag sat stjórn flokksins á fundi í Stokkhólmi. 

Salin hafði áður sagt, að hún og aðrir í æðstu stjórn flokksins myndu leggja embætti sín undir í kosningum á aukaflokksþingi í mars á næsta ári. En eftir fundahöld með trúnaðarmönnum flokksins um helgina tilkynnti Salin, að hún myndi hætta sem leiðtogi á flokksþinginu og gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. Hún var kjörin flokksleiðtogi í byrjun ársins 2007 þegar Göran Persson lét af því embætti. 

Salin sagði á blaðamannafundinum í dag, að hún teldi rétt að hún axlaði ábyrgð á úrslitum þingkosninganna, sem fóru fram í september. Þar fékk Jafnaðarmannaflokkurinn rúmlega 30% atkvæða og hefur ekki notið jafn lítils fylgis og nú frá árinu 1914. 

Salin sagði, að Jafnaðarmannaflokkurinn gengi nú gegnum djúpa kreppu eftir að hafa tapað í tvennum þingkosningum og eðlilegt væri að skipta um  forustu flokksins.

Gert er ráð fyrir að leit að nýjum flokksleiðtoga hefjist á morgun og tilnefning í embættið liggi fyrir 24. nóvember, að sögn blaðsins Dagens Nyheter.   


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert