Blaðamaður dæmdur til hýðingar

Abdullah konungur er hvattur til að fella niður dóminn yfir …
Abdullah konungur er hvattur til að fella niður dóminn yfir blaðamanninum.

Blaðamaður í Sádí-Arabíu var á dögunum dæmdur til að vera hýddur á almannafæri auk þess að hljóta fangelsisdóm fyrir að segja frá mótmælum gegn rafmagnsskorti í landinu. Mannréttindasamtök fordæma úrskurðinn og hvetja stjórnvöld í landinu til að náða manninn.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að blaðamaðurinn, Fahd al-Jukhaidib, sem vinnur fyrir blaðið Al-Jazira, hafi verið dæmdur til að vera hýddur fimmtíu sinnum auk tveggja mánaða fangelsisvistar. Þar af skuli hann vera hýddur 25 sinnum á almannafæri. Það var dómstóll í borginni Qubba í norðurhluta landsins sem komst að þessari niðurstöðu.

Í greininni sem al-Jukhaidib var dæmdur fyrir lýsti hann vandamálum borgarbúa í Qubba vegna tíðs rafmagnsleysis. Birtist greinin þann 7. september árið 2008 að sögn samtakanna.

Al-Jukhaidib, sem einnig er skólastjóri menntaskóla fyrir drengi, var í kjölfarið ákærður fyrir að hvetja til mótmæla fyrir framan orkufyrirtækið. Gengur hann laus enn um sinn á meðan hann áfrýjar dómnum.

„Abdullah konungur hefur hvatt þegna sína til þess að viðra óánægju sína sem byggist á rökum en svo virðist sem þeir sem það geri geti átt von á hýðingu á almannafæri og fangelsisvist,“ sagði Christoph Wilcke, yfirmaður málefna Miðausturlanda hjá Human Rights Watch.

„Fundar- og tjáningarfrelsið eru grundvallaratriði í opnu og ábyrgu samfélagi en það er lítið framboð af því í eins afturhaldssömu landi og Sádí-Arabíu,“ bætti hann við. 

Dómstólar í landinu byggja dóma sína á hinum ströngu sjaríalögum en Al-Jukhaidib er ekki fyrsti blaðamaðurinn sem dæmdur er til hýðingar þar.

Í fyrra dæmdi dómstóll í borginni Jeddah blaðakonuna Rozana al-Yami til að vera hýdd sextíu sinnum fyrir að vinna fyrir líbanska sjónvarpsstöð sem sýndi þátt með kynlífsjátningum.

Konungur landsins fyrirskipaði síðar að refsing hennar skildi felld niður.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert