Rýma þurfti hluta af höfuðstöðvum NATO í Brussel í dag eftir að sprengja frá seinni heimsstyrjöldinni fannst við vegaframkvæmdir í nágrenni byggingarinnar.
Sprengjan fannst á götunni Leopold III og var hún um fimmtíu kíló að þyngd. Var starfsmönnum hernaðarbandalagsins í kjölfarið gert að yfirgefa svæðið þar sem meðal annars var mötuneyti, matvörubúð og íþróttaaðstaða starfsmanna.
Ákvörðunin um að rýma bygginguna var tekin í varúðarskyni í samráði við belgíska sveit sprengjusérfræðinga. Aðeins einn útgangur var opinn á meðan neyðarástandið stóð yfir og leiddi það til ringulreiðar á meðal starfsmanna og gesta.
Meiriháttar framkvæmdir standa nú yfir í breiðstrætinu sem liggur fyrir framan höfuðstöðvar bandalagsins við að lengja sporvagnalínu sem mun tengja höfuðstöðvarnar við miðborg Brussel.