Reyndi að draga úr kjörsókn

Frá Baltimore
Frá Baltimore Wikipedia

Yfirvöld í Maryland-fylki í Bandaríkjunum krefjast þess að kosningaráðgjafi Repúblikanaflokksins verði dæmdur til að greiða sektir upp á tugi milljóna dollara fyrir að hafa sent kjósendum í ríkisstjórakosningunum í byrjun mánaðar misvísandi fjöldaskilaboð á kosningadaginn til að draga úr kjörsókn.

Ráðgjafi frambjóðanda repúblikana til ríkisstjóra í Maryland-fylki, Robert L. Ehrlich Jr. sendi að kvöldi kosningadags út sjálfvirk símtöl með fyrirfram uppteknum skilaboðum til þúsunda kjósenda í fylkinu. Skilaboðin sögðu fólki að „slaka á“ því að barátunni væri lokið, jafnvel þó að kjörstaðir væru enn opnir. Bandaríska blaðið Baltimore Sun segir frá þessu.

Saksóknari Maryland-fylkis fullyrðir að skilaboðin hafi verið send út til þess að draga úr og ógna kjósendum á þeim svæðum þar sem aðallega blökkumenn búa.

„Símtölin voru ekki gerð til þess að sannfæra fólk um að kjósa einn frambjóðanda umfram annan eða einn flokk umfram annan,“ sagði saksóknarinn á blaðamannafundi. „Tilgangurinn var að draga úr kjörsókn. Við líðum ekki slíkt framferði í Maryland,“ sagði hann.

Málsóknin gegn ráðgjafanum, Julius Henson, og fyrirtæki hans Universal Elections byggist á því að ekki hafi verið tekið fram hver stóð að baki skilaboðunum til kjósenda. Fylkisstjórnin fer fram á 500 dollara fyrir hvert brot sem þýðir að heildarsektin gæti numið um 60 milljónum dollara, eða rúmum 530 milljónum íslenskra króna.

Í sjálfvirka símtalinu heyrðist kvennmannsrödd samstarfskonu Hensons segja kjósendum að „O'Malley ríkisstjóri [sitjandi ríkisstjóri demókrata] og Obama forseti hafa haft árangur sem erfiði. Við  höfum náð takmörkum okkar. Spárnar voru réttar og við unnum þetta aftur. Við erum góð. Slakið á. Það eina sem er eftir er að horfa á sjónvarpið í kvöld“.

Henson neitar að símtölunum hafi verið ætlað að draga úr kjörsókn heldur hafi þau átt að hvetja kjósendur Ehrlichs til dáða. Hins vegar leiddi rannsókn saksóknara í ljós að af þeim 112.000 kjósendum í Baltimore og Prince George-sýslu sem fengu símtal hafi ekki verið neinn repúblikani.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Henson verður uppvís að því að beita vafasömum meðölum í kosningabaráttu. Fyrir kosningarnar til ríkisstjóra árið 1998 stóð hann fyrir því að útmála frambjóðanda repúblikana sem kynþáttahatara með bæklingum og öðru áróðursefni sem sýndi hann sem andstæðing mannréttinda. Árið 2002 hét hann að sýna Ehrlich, sem þá var andstæðingur hans, sem nasista til þess að reyna afla frambjóðanda sínum fylgi svartra kjósenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert