Almannatryggingar leið út úr kreppu

Einn þriðji vinnubærra jarðarbúa hefur engan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Einn þriðji vinnubærra jarðarbúa hefur engan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Aðeins einn af hverjum fimm jarðarbúum hefur aðgang að fullum almannatryggingum þrátt fyrir að samfélagslegt öryggisnet sé lykilþáttur í því að draga úr áhrifum fjármálakreppu í heiminum að því er kemur fram í skýrslu Alþjóðlegu vinnumálastofnunarinnar (ILO).

Í skýrslu stofnunarinnar kemur ennfremur fram að ekkert land í heiminum er án nokkurra almannatrygginga. Engu síður hefur meirihluti heimsbyggðarinnar ekki aðgang að víðtækum almannatryggingum því víða nái þeir eingöngu til nokkurra sviða eins og heilsugæslu, eftirlauna, félagshjálpar eða atvinnuleysisbóta.

Atvinnuleysisbætur eru aðeins til staðar í 42% af þeim 184 löndum sem skýrsla stofnunarinnar tók til og innan við einn af hverjum þremur á vinnumarkaði í heiminum er tryggður fyrir vinnutengdum slysum eða veikindum. Þá hefur einn af hverjum þremur engan aðgang að nokkurs konar heilbrigðisþjónustu eða stofnunum.

Þegar þeir sem ekki eru virkir á vinnumarkaði eru teknir með í reikninginn reiknar stofnunin með að aðeins 20% af íbúum jarðar á atvinnualdri hafi góðan aðgang að víðtæku samfélagslegu öryggisneti en það segir ILO að dragi úr áhrifum efnahagskreppunnar með því að koma í stað tekjumissis og auka eftirspurn.

Einungis 17% af útgjöldum landa heims fer í almannatryggingar en meginhluti þeirra er í tekjuhæstu löndunum. Á heimsvísu eiga 40% þeirra sem eru á atvinnualdri rétt á eftirlaunum en í Evrópu og Norður-Ameríku eru hlutfallið tvöfalt hærra.

Þá kemur fram í skýrslunni að um 75% af fólki yfir 65 ára aldri í ríkari löndunum þiggi einhvers konar bætur. Í fátækari löndum eru aðeins um 20% sem fá eftirlaun en það hlutfall er jafnvel lægra í Afríkulöndum sunnan Sahara-eyðumerkurinnar.

ILO heldur fram að víðtækar og vel skipulagðar almannatryggingar létti á fátækt, komi í veg fyrir langtímaatvinnuleysi og flýti fyrir efnahagsbata eftir kreppu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert