Slitnað hefur upp úr viðræðum um fjárlög fyrir Evrópusambandið árið 2011. Bretar og Hollendingar leggja ríka áherslu á að fjárlög ESB hækki lítið sem ekkert og neita að ræða um breytingar á fjáröflun sambandsins. Evrópuþingið vill hærri fjárlög og viðræður um nýjar leiðir fyrir ESB til að afla fjár.
Miklar samningaviðræður hafa staðið yfir undanfarna daga en þeim lauk í gærkvöldi án niðurstöðu, að því er vefritið Euobserver.com greinir frá.
Ástæðurnar fyrir því að samningaviðræðurnar sigldu í strand eru einkum raktar til þess að nýjar reglur hafa tekið gildi um málsmeðferð sem hafa aukið vald Evrópuþingsins, á kostnað ráðherraráðsins sem í sitja fulltrúar aðildarríkjanna. Reglurnar eru hluti af hinum nýja Lissabon-sáttmála.
Ráðherrar frá Bretlandi og Hollandi lögðu ríka áherslu á að umræðurnar ættu einungis að snúast um fjárlög ársins 2011 og neituðu að ræða umdeild atriði sem lúta að fjármálum ESB til lengri tíma, s.s. hvort hækka eigi svokallaðar eigin tekjur ESB með aukinni skattheimtu eða að gert verði ráð fyrir sveigjanlegum fjárlögum til að bregðast við óvæntum útgjöldum.
Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands hafa staðið fyrir miklum niðurskurði á heimavígstöðvunum sem á sinn þátt í að þær eru tregar til að samþykkja aukin útgjöld ESB.
Bretar hafa barist fyrir því að fjárlög ESB fyrir árið 2011 verði jafnhá, í evrum, eins og á þessu ári eða hækki í mesta lagi um 2,9% sem er helmingur þess sem Evrópuþingmenn telja hæfilegt. Heimildir Euobserver herma að Bretar telji að sveigjanleg fjárlög geti leitt til þess að ríkisstjórnir þyrftu að greiða meira til sambandsins.
Framkvæmdastjórn ESB þarf nú að útbúa nýja tillögu að fjárlögum ESB sem verður lögð fyrir leiðtoga aðildarríkjanna í desember nk.