Sædís Kolbrún Steinsdóttir segir erfitt að fá upplýsingar um brunann í Sjanghæ og mikil reiði sé meðal fólks sem átti ættingja í húsinu. Í dag sá hún þegar angistarfullur ættingi reyndi að komast fram hjá lögreglu og inn í húsið. Sædís tók myndband þar sem upphaf eldsvoðans sést vel.
Sædís gekk að húsinu í dag og þá höfðu nokkur þúsund manns safnast þar fyrir, bæði fólk sem var að skoða en einnig ættingjar og vinir fólks sem bjó í í íbúðablokkinni. „Ættingjar þeirra eru enn fyrir utan því þau hafa ekkert fengið að vita,“ segir hún.
Fjölmiðlar hættu að fjalla um málið
Kínverskir ríkisfjölmiðlar hafa greint frá því að 53 hafi farist og Sædís segir að samkvæmt fregnum í dag sé 43 enn saknað. Reyndar sé afar lítið fjallað um stórbrunann í kínverskum fjölmiðlum. Svo virðist sem upp úr kvöldmatarleytinu í gær hafi ríkisfjölmiðlar í Kína að mestu hætt að flytja fréttir af brunanum og orsökum hans. Því sé erfitt fyrir venjulegt fólk að fá upplýsingar um brunann. Þær sé helst að fá á erlendum vefmiðlum, bloggsíðum og þess háttar. Afar misjafnt sé hins vegar hvort fólk hafi aðgang að Netinu.
Sædís telst svo til að sjö blöð sem hún hefur séð í dag hafi fjallað um brunann. Í öllum tilvikum hafi verið um minniháttar fréttablöð að ræða.
Þá hafi fáar myndir birst af brunanum í kínverskum fjölmiðlum. Fólk þyrsti hins vegar í upplýsingar. Þegar Sædís var á gangi við húsið í dag var hún tvívegis spurð hvort hún væri með myndir af brunanum í gær, en þær myndir voru enn á stafrænni myndavél Sædísar. Í báðum tilvikum sýndi hún viðkomandi myndirnar og fljótlega safnaðist að henni hópur fólks sem vildi sjá hvað hafði gerst. Þegar yfir lauk hafði Sædís sýnt um 70-80 manns myndirnar. Fólk hafi verið forvitið og undrandi þegar hún sagði þeim að fjallað væri um brunann á Íslandi.
Ættingi reyndi að hlaupa inn í húsið
Þegar Sædís var að skoða ummerki brunans í dag veitti hún manni athygli sem horfði stíft á lögreglumenn sem gæta hússins. Þegar lögreglumennirnir sneru við honum baki stökk hann yfir girðingu sem komið hafði verið fyrir til að loka brunavettvanginum og reyndi að hlaupa inn í húsið. Lögreglumennirnir voru hins vegar fljótir að handsama hann. „Ég skil lítið í kínversku en ég skyldi að hann ætti ættingja sem bjuggu í húsinu en hann hefði ekki fundið þau á spítölum,“ segir Sædís. „Það var svakalegur sorgarsvipur á honum. Það var angist í svipnum."
Sædís varð vör við eldinn um 20 mínútum eftir að hann braust út. Hún tók upphaf eldsvoðans upp á myndband sem fylgir þessari frétt en það hefur ekki áður verið birt. Við upphaf myndbandsins logaði eldur á um sex hæðum en tveimur mínútum síðar hafði hann breiðst út um alla bygginguna.
Sædís segir ljóst að nælondúkurinn sem hafði verið strengdur um blokkina hafi ekki verið eldvarinn og því hafi eldurinn náð að breiðast út með ógnarhraða.
Átta manns hafa nú verið handteknir vegna refsiverðrar vanrækslu, að sögn kínverskra yfirvalda. Þau segja að eldfimur nælondúkurinn og krossviður sem notaður var í vinnupöllunum hafi valdið því að eldurinn magnaðist hratt. Sterkur vindur hafi enn aukið við eldinn.
Frá því brunastörfum lauk hefur enginn farið inn í bygginguna, að sögn Sædísar. Lögregla sé hins vegar með stranga vakt við húsið.
Sædís hefur búið í Sjanghæ í um sjö mánuði. Kærasti hennar, Jóhann Örn Reynisson, vinnur hjá CCP í borginni. Hún er nú að leita sér að vinnu og er að læra tungumálið.