Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, kveðst ætla að bíða með ákvörðun um aðstoð við skuldum vafið landið þar til hann hefur rætt við sendinefnd Evrópusambandsins (EU) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem er væntanleg til Dyflinnar á morgun.
Hann sagði í samtali við írska sjónvarpið RTE að Írar hafi ekki beðið um neina undanlátssemi eða hafið neinar samningaviðræður. Hann sagði að ekki sé búið að teikna upp lausnina fyrir Íra og þeir hafi ekki ákveðið neitt. Hins vegar muni þeir koma með sínar tillögur að lausn og viðræðurnar snúist um bestu leiðina úr vandanum.
„Það liggur á. Við erum sammála því að vandinn er bráður og við þurfum að taka á honum en við munum líka mæta honum með okkar eigin hagsmuni í huga,“ sagði Cowen. Hann sagði að það eigi eftir að koma í ljós hvort Írum tekst að leysa úr vanda írsku bankanna, án þess að leita í sjóði ESB.