Enn hefur ekkert heyrst í þeim sem eru fastir ofan í Pike River kolanámunni á Nýja Sjálandi eftir að öflug sprenging varð þar í nótt. Tveir komust upp úr námunni. Þegar sprengingin varð voru bæði námuverkamenn og stjórnendur kolanámunnar við störf ofan í henni, um 1500 metrum fyrir neðan yfirborðið.
Fjöldi þeirra sem saknað er hefur verið á reiki. Námustjórinn sagði að 36 væri saknað og byggði það á skráningu á þeim sem voru niðri í námunni þegar sprengingin varð. Forstjóri námufélagsins sagði síðar að 27 væri saknað, 15 úr starfsliði námunnar og 12 verktaka.
Margir ættingjar og vinir þeirra sem saknað er eru komnir að námunni og bíða fregna.
Að sögn nýsjálenska dagblaðsins New Zealand Herald voru stjórnendur námunnar að kanna öryggimál í henni þegar sprengingin varð. Haft er eftir orkumálaráðherranum Gerry Brownlee að sprengingin hafi orðið klukkan 3:45 síðdegis, að staðartíma, og að síðast hafi náðst samband við menn ofan í kolanámunni klukkan 4:15. Hann sagði að ekkert væri vitað um orsök sprengingarinnar eða ástand og líðan þeirra sem fastir eru í námunni.
Náman er nýleg og í henni eru björgunargöng en óljóst er hvort mennirnir ofan í námunni komast að þeim. Meðlimir í björgunarsveitum sem hafa farið ofan í göngin eru með súrefnisgrímur og hafa verið varaðir við möguleikum á frekari sprengingum.
Pike River náman er afar afskekkt og um klukkustundar akstur er frá námunni og að næsta sjúkrahúsi.