Sílesku námuverkamennirnir eru komnir til Los Angeles þar sem þeir munu taka þátt í umfjöllun CNN-fréttastöðvarinnar um hetjur. Verkamennirnir 33, sem sátu fastir neðanjarðar í tvo mánuði, hafa vakið heimsathygli. Þeir skemmtu sér vel er þeir óku um götur Hollywood í tveggja hæða strætisvagni.
Spænski leikstjórinn Antonio Recio er byrjaður að gera kvikmynd um björgun verkamannanna, en þeim var bjargar úr prísundinni í síðata mánuði. Þetta er fyrsta myndin sem er gerð um þolraunir þeirra, en búast má við að fleiri myndir verði gerðar.
„Ég hef áhuga á því sem gerðist þarna niðri. Öllu sem gerðist þarna. Það sem þeir óttuðust og höfðu áhyggjur af. Vonin í upphafi og örvæntingin sem kom í kjölfarið. Þegar borinn bilar og brotnar. Allt þetta leiðir til tilfinninga sem ég tel að sé þess virði að segja frá,“ segir leikstjórinn.
Verið er að taka upp myndina í Síle og verður hún á spænsku. Vonir standa til að hún verði tilbúinn í desember.