Skilja bara ekki hringtorg

Hringtorg eru af öllum stærðum og gerðum. Fá hér á …
Hringtorg eru af öllum stærðum og gerðum. Fá hér á landi eru þó minni en hringtorgið við Nóatún í Reykjavík mbl.is/Brynjar Gauti

Hringtorgum hefur fjölgað mikið í Bandaríkjunum undanfarin ár. Bandaríkjamenn taka breytingunum margir illa enda eiga þeir ekki að venjast hringtorgum. „Fólk skilur bara ekki. Það bara skilur ekki hringtorg,“ er haft eftir verkfræðiprófessor í Kansas.

New York Times fjallar um fjölgun bandarískra hringtorga á vef sínum í dag. Þar kemur m.a. fram að hringtorg eru talin ódýrari, umhverfisvænni og öryggari en gatnamót þar sem umferð er stýrt með umferðarljósum.  Hringtorg eru sögð geta dregið úr útblæstri um 30% þar sem ökumenn þurfa síður að stöðva og taka af stað.

 Ekki eru til upplýsingar um fjölda hringtorga í Bandaríkjunum en flestir sérfræðingar eru sammála um að þeim fjölgi hratt. Í Wisconsin hafa verið gerð um 100 hringtorg frá árinu 2004 og ætlunin er að gera 52 til viðbótar á næsta ári. Í Maryland eru hringtorgin um 200 og í Kansas eru þau um 100.

„Það er mikið um það sem ég kalla órökrétta andstöðu,“ segir Eugene R. Russell Sr., verkfræðiprófessor við Háskólann í Kansas og formaður vinnuhóps sem á að vinna að fjölgun hringtorga á landsvísu. „Fólk skilur bara ekki. Það bara skilur ekki hringtorg,“ segir hann.

Íbúar í Evrópu hafa flestir vanist hringtorgum en það á ekki við um Bandaríkjamenn, eins og kom fram með eftirminnilegum hætti þegar Clark Criswold, leikinn af Chevy Chase, komst bara alls ekki út Lambeth Bridge hringtorginu í London og neyddist því til að hringsóla á innstu akrein í heilan dag. „Þarna er Big Ben, krakkar. Þinghúsið!“ sagði Griswold, bjartsýnn að vanda.

Að mati sérfræðings sem New York Times ræddi við eru um 2000 hringtorg í Bandaríkjunum, öll lögð á síðasta áratug. Í Frakklandi eru um 30.000 hringtorg. Þeim hefur ekki alltaf verið tekið fagnandi.

Óku vitlausan hring

Íbúar í borgum Bandaríkjanna þar til stendur að leggja hringtorg hafa m.a. safnað undirskriftum til að mótmæla þeim og m.a. bent á að þótt hringtorg henti menningu, hefðum og siðum í einu landi, þurfi þau ekki endilega að henta í Bandaríkjunum. Yfirleitt er andstaðan mest í byrjun, síðan róast fólk og loks samþykkir það hringtorgin, eða að minnsta kosti sættir sig við þau.

Í frétt New York Times er tekið dæmi af borg í Wisconsin, Mosinee, þar sem hringtorg var opnað í október sl. Mikil andstaða hafði verið við hringtorgið, ekki síst meðal þeirra sem eldri eru. Þegar torgið var opnað gekk umferðin að mestu vandræðalaust. „Fólk var alltaf að stoppa og fólkið sem átti ekki að stoppa var alltaf að veifa til hinna og hvetja þá til að aka inn í torgið,“ sagði Michelle Ringhoffer, bókabúðareigandi í Mosinee. Eitthvað var einnig um að fólk æki vitlausan hring í torginu en það slapp þó slysalaust. Enginn var þar fastur í heilan dag, eins og Griswold forðum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert