Sádi-arabísk kona, sem hunsaði bann við því að konur aki bílum þar í landi, fórst ásamt þremur öðrum konum í bílslysi. Alls voru tíu konur farþegar í jeppanum sem valt, að því er sádiðarabíski fréttavefurinn Sabq greindi frá í dag.
Talsmaður lögreglunnar í Riyadh greindi frá því að hinar konurnar sjö sem voru í bílnum og komust af hafi allar slasast. Slysið varð á laugardagskvöld á svæði í eyðimörkinni þar sem ungir Sádar safnast saman og reyna með sér í kappakstri.
Ökumaðurinn, kona á þrítugsaldri, ók fjórhjóladrifnum bíl en missti stjórn á honum og ók á fyrirstöðu, að sögn embættismanns. Á undanförnum árum hafa orðið mörg umferðarslys í Sádi-Arabíu þar sem konur hafa verið ökumenn, þrátt fyrir bann þar í landi við að konur aki bílum.
Kvenréttindakonur hafa hvatt Abdullah konung til að upphefja bannið. Strangar reglur gilda í Sádi-Arabíu um hegðun kvenna á almannafæri. Auk þess að mega ekki aka bílum verða þær m.a. að hylja líkama sinn frá hvirfli til ilja á almannafæri og ekki ferðast nema þær hafi skriflega ferðaheimild frá karlkyns verndara.