Samuel Kunz lést þann 18. nóvember sl. Að öllum líkindum á heimili sínu. Réttarhöldin áttu að hefjast í febrúar yfir honum en hann játaði að hafa starfað í Belzec-útrýmingarbúðunum í Póllandi á árunum 1942 og 1943, en neitaði að hafa átt beina aðild að morðum.
Kunz er á meðal eftirlýstustu manna á lista sem Stofnun Simon Wiesenthal Center, sem hefur unnið að því að hafa uppi á nasistum, birti í apríl. Efraim Zuroff, yfirmaður Simon Wiesenthal stofnunarinnar í Jerúsalem, segir í samtali við AFP fréttastofuna að það séu vissulega vonbrigði að ekki verði réttað yfir Kunz. „Eftir að hann hafi lifað sem frjáls maður í Þýskalandi áratugum saman virtist sem réttað yrði yfir honum. Nú er ljóst að það verður aldrei." Hann segir það bót í máli að Kunz hafi fundist og verið ákærður fyrir sinn þátt í glæpum gegn gyðingum í seinni heimstyrjöldinni.
Í stríðsglæparéttarhöldunum í Nürnberg, sem voru haldin eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar, hlutu nokkrir af helstu leiðtogum nasista dauðadóma. Frá þeim tíma hafa þýsk stjórnvöld rannsakað yfir 25.000 mál sem tengjast glæpum nasista. Fæst málanna hafa hins vegar endað fyrir dómstólum.
Undanfarin ár hefur staðan breyst og hafa fjölmargir verið handteknir og mörg dómsmál höfðuð vegna stríðsglæpa nasista. Flestir hinna handteknu eru nú um nírætt.