Írskir hraðbankar virka áfram

Írski fjármálaráðherrann hvatti almenning til að sýna stillingu.
Írski fjármálaráðherrann hvatti almenning til að sýna stillingu.

„Það er frumskilyrði að okkur takist að halda efnahagslífinu gangandi, að allir skilji að hraðbankar virki, að laun séu greidd [...] að mikill fjöldi erlendra fjárfesta haldi áfram að festa fé í fyrirtækjum,“ sagði Brian Lenihan, fjármálaráðherra Írlands, við þjóð sína í gær.

Mikill órói er í írsku þjóðfélagi eftir að ljóst varð að írska stjórnin réði ekki við skuldavandann og þurfti að leita á náðir erlendra aðila um neyðaraðstoð. Ber því að skilja orð Lenihans sem tilraun til að lægja öldurnar og fullvissa almenning um að hjól efnahagslífsins haldi áfram að snúast.

Enn er óljóst hversu mikið fé Írar fá að láni frá ESB, Evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en Lenihan fullyrðir að upphæðin verði undir 100 milljörðum evra, eða sem svarar hátt í 15.400 milljörðum króna.

Til að setja þá upphæð í íslenskt samhengi er þjóðarframleiðsla á Íslandi á árinu 2009 áætluð hafa verið um 1.500 milljarðar króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert