Fulltrúar Evrópusambandsins hafa varað írsk stjórnvöld við að efna til þingkosninga í janúar nú þegar landið þarf á neyðaraðstoð á halda vegna íþyngjandi skuldabyrði. Fulltrúi ESB sem Daily Telegraph ræddi við líkti andstæðingum írska forsætisráðherrans við rottur sem flýi sökkvandi skip.
Umrædda andstæðinga er að finna í flokki Brians Cowens forsætisráðherra, Fianna Fail, og í Græna flokknum, samstarfsflokki hans í ríkisstjórn.
Fylgi Finna Fail hefur ekki mælst minna í 88 ár og segir blaðið þingmennina hafa hugann við að komast hjá því að missa þingsæti sitt með því að losa sig við Cowen í tæka tíð fyrir kosningabaráttu sína.
Forsætisráðherrann sé orðinn baggi á flokknum sem beri að fórna.
Héldu að embættismenn í Brussel væru vinir sínir
Cowen hefur sagt við kjósendur sína að neyðaraðstoð ESB kunni að verða í uppnámi ef ríkisstjórnin falli, túlkun sem ónafngreindur diplómati ýjar að í samtali við Daily Telegraph.
Blaðið ræðir einnig við Declan Ganley, leiðtoga nei-herferðarinnar gegn Lissabon-sáttmálanum árið 2008, en hann sakar ESB um að þvinga írska stjórnmálamenn til að fallast á óvinsælar björgunaraðgerðir í því skyni að vernda evruna.
„Írskri stjórnmálastétt hefur verið fórnað á altari hentugleika þeirra sem þeir héldu að væru vinir sínir í Brussel, Berlín og París. Þeir hafa teflt skák við jafningja Kasparovs í stjórnmálum og áttu þar enga möguleika.“