Evrusvæðið á tvo kosti í stöðunni ef það á að standa af sér kreppuna og verða gjaldmiðill í Evrópu til frambúðar. Fyrri kosturinn er að aðildarríkin stígi skref í átt að sameiginlegri hagstjórn með frekari sameiningu ESB-ríkjanna. Í síðara lagi að evrusvæðið verði klofið í tvennt.
Þetta er mat Stephens Booth, sérfræðings hjá hugveitunni Open Europe í Lundúnum, en hún hefur lengi staðið fyrir gagnrýni á evruna sem hagstjórnartæki.
Máli sínu til stuðnings bendir Booth á að frá upptöku evrunnar hafi Þjóðverjar lagt áherslu á að halda launum niðri til að örva útflutning.
Á sama tíma hafi ríki á jaðri evrusvæðisins, Grikkland og Portúgal þar með talin, ekki fylgt sömu stefnu.
Góðærið var blekking
Jaðarríkin hafi nýtt sér lágt vaxtastig á evrusvæðinu og búið við velsæld á síðasta áratug sem nú sé komið í ljós að hafi verið „blekking“.
„Portúgal hefur verið læst inni á evrusvæðinu og það hefur dregið úr samkeppnishæfni landsins. Landinu hefur ekki tekist að draga úr launakostnaði líkt og Írum tókst raunar um hríð. Írar gengu í gegnum mikið hagvaxtarskeið og standa frammi fyrir miklum vandamálum.
Portúgal hefur hins vegar gengið í gegnum stöðnun á síðustu tíu árum. Portúgölum hefur ekki tekist að lækka kostnað í samanburði við önnur evruríki. Vaxtastigið hentaði ekki portúgalska hagkerfinu sem notaðist við of hátt skráðan gjaldmiðil,“ segir Booth of á við evruna.
Stöðugleiki víkur fyrir óvissu
- En ef við víkjum að hinni hliðinni. Hvaða kosti hefur evran haft í för með sér?
„Ætli að það megi ekki segja að hún hafi haft í för með sér stöðugleika fram að þessu. Útlitið fram undan er hins vegar ekki bjart. Við hjá Open Europe höldum því fram að evran sé óstöðugur gjaldmiðill fyrir evruríkin á jaðrinum. Við teljum Portúgal í þeim hópi.“
Booth heldur áfram og segir að ef Portúgal þurfi á neyðaraðstoð að halda, líkt og allt útlit sé fyrir, séu líkur á að Spánn fylgi í kjölfarið. Fari svo þurfi að koma til neyðaraðstoð upp á hundruð milljarða evra - þúsundir milljarða króna - en ekki tugi milljarða evra líkt og hjá Grikkjum og Írum.
Viðbrögð markaðarins að undanförnu sýni að hans mati að markaðurinn hafi ekki trú á evrunni sem framtíðargjaldmiðli í óbreyttri mynd.
Eini valkosturinn sem skuldugum evruríkjum standi til boða sé að draga úr kostnaði, þar með talið launum, og útgjöldum hins opinbera. Við slíkan niðurskurð verði ekki komist hjá félagslegum og efnahagslegum hliðaráhrifum sem verði álfunni þungbær.
Treyst á þýskan björgunarhring
- Undanfarinn áratugur hefur verið tímabil mikils uppgangsskeiðs. Erum við að horfa fram á mörg erfið ár í efnahagslegu tilliti?
„Það er erfið spurning. Við teljum að evran í óbreyttri mynd sé ósjálfbær. Við horfðum fram á tíu ára uppgangsskeið sem síðan reyndist blekking. Ríkisstjórnir gátu tekið fé að láni með mun lægri kostnaði en þær hefðu átt að geta. Þær stóðu í þeirri trú að ef illa færi myndu Þjóðverjar koma þeim til bjargar. Á Írlandi er vandinn að hluta til annars eðlis en þar tók einkageirinn mikið fé að láni af svipuðum ástæðum því hvatinn til að taka lán var mikill.“
Inntur eftir því hvernig hann sjái fyrir sér framtíð evrunnar segir Booth að annars vegar kunni sú atburðarás að fara í hönd að stuðlað verði að frekari sameiningu evruríkjanna á efnahagssviðinu þar sem Þjóðverjar standi straum af kostnaðinum við gjaldmiðilssamstarfið. Slíkt fyrirkomulag kalli á mikla fjármagnsflutninga frá efnuðum evruríkjum til þeirra fátækari, ójafnvægi sem vekja muni margar spurningar um lýðræði í samstarfinu.
Hin atburðarásin sé klofningur evrunnar í sterka og veiku evru, eftir efnahag evruríkjanna.
Evran átti að sameina Evrópu
Fyrri atburðarásin kalli á slíka íhlutun Þjóðverja að hún muni aldrei samrýmast þýsku stjórnarskránni.
- Telurðu að hugmyndin að baki evrusvæðinu hafi falið í sér grundvallarveilur frá upphafi?
„Já. Við [hjá Open Europe] beittum okkur gegn upptöku evrunnar í Bretlandi vegna þess að efnahagsrökin að baki gjaldmiðlinum gengu ekki upp,“ segir Booth og bendir á að evruvæðing ESB-ríkjanna hafi haft það pólitíska markmið að binda ríki Evrópu nánari böndum.
Evran hafi því verið pólitískt tæki.