Skuldakreppan gæti þróast yfir í átök

Höfuðstöðvar bankans Morgan Stanley í New York.
Höfuðstöðvar bankans Morgan Stanley í New York. Reuters

Takist ekki að rétta heimshagkerfin við á næstu misserum kann að fara í hönd atburðarás þar sem samskipti ríkja einkennast af aukinni spennu sem gæti jafnvel þróast yfir í baráttu um yfirráð yfir náttúruauðlindum. Þetta er mat Kanadamannsins Alex Jurshevski en hann er sérfræðingur í skuldakreppum.

Jurshevski kveðst aðspurður hafa miklar áhyggjur af kreppunni á evrusvæðinu enda sé peningamarkaðskerfi heimsins illa í stakk búið til að takast á við jafn djúpstæða skuldakreppu og nú blasi við.

Morgunblaðið sló á þráðinn til hans síðasta föstudag en eins og kunngt er urðu þau stórtíðindi á sunnudag að Írar leituðu eftir neyðaraðstoð vegna vangetu írska ríkisins til að standa undir afborgunum.

Hætta á dómínóáhrifum

- Matthew Lynn, dálkahöfundur hjá Bloomberg, telur líkur á dómínuhruni á evrusvæðinu. Ertu sammála?

„Já, og ekki nóg með það. Ef Írland fellur mun fólk spyrja hvaða ríki sé næst í röðinni. Þrýstingurinn á Grikkland gæti aukist á ný. Það mun vissulega skapast þrýstingur á Portúgal og Spán.

Ítalía á í vandræðum. Bretar þurfa að endurfjármagna gífurlega miklar skuldir á næstunni og áhyggjurnar sem ég myndi hafa, fari svo að keðjuverkun fari af stað, er að þetta smiti út frá sér - að fjárfestar byrji að verða taugaveiklaðir og hiki við að fjárfesta í einstökum ríkjum og að skuldabréfamarkaðir bregðist hart við þróuninni í nokkrum hagkerfum.

Þetta eykur kostnað allra af lántökum og í sumum tilfellum kunna skuldabréfamarkaðir að loka dyrunum jafnvel þótt þeim séu boðnir hærri vextir. Þetta gæti hent einstök ríki og stórfyrirtæki.

Augljóst er að ef þessi þróun fer af stað mun það koma niður á efnahagskerfinu sem aftur mun hafa áhrif á vinnumarkaðinn. Neikvæð hringrás fer af stað og gætu stjórnvöld brugðist við með innspýtingu lánsfjár í hagkerfin til að koma á stöðugleika sem aftur gæti farið illa. Við erum að horfa fram á mjög hættulega stöðu.“ 

Engin dómsdagsspá

- Nú kynnu einhverjir að blása á þetta og segja sem svo að þú leggir fram dómsdagsspár. Hvernig myndirðu bregðast við því?

„Þetta er ekki dómsdagspá. Við horfum nú fram á slíka atburðarás. Takist ekki snúa málum til betri vegar munum við horfa fram á aukið atvinnuleysi og félagslega ókyrrð í fjölda ríkja.“

- Hver er versta mögulega útkoman?

„Það versta sem gæti gerst er að Bandaríkjastjórn haldi áfram að þvinga efnahagsstefnu sinni upp á aðrar þjóðir og að viðbrögðin verði slæm og að sýkingin dreifi úr sér í bandarísku hagkerfi,“ segir Jurshevski og bendir á að Kínverjar séu mjög ósáttir við stefnu bandaríska seðlabankans.

Bandaríkin eru skuldum vafin

Hann segir Bandaríkin glíma við mjög erfiða skuldastöðu. Ríkisstjórnir sambandsríkjanna og mörg bæjarfélög séu í raun gjaldþrota.

„Það er margt athugavert við stöðu fjármála í Bandaríkjunum. Bandaríska hagkerfið stendur mun verr en menn vilja vera láta. Í dómsdagsspánni taka vextir að hækka í Bandaríkjunum með tilheyrandi höggi á hlutabréfamarkaðinn.

Það þarf að endurfjármagna 10 trilljónir bandaríkjadala í heimshagkerfinu á næsta ári og er hlutur Bandaríkjanna þar af um 42%. Bandaríkin þurfa að safna 4,2 trilljónum dala til að endurfjármagna útistandandi skuldir sínar og mæta fjárlagahallanum. Stórum hluta af þessu er mætt með peningaprentun [e. quantitative easing]. Sú stefna er ekki í þágu hagkerfisins heldur í þágu greiðslugetu alríkisstjórnarinnar [e. federal funding] og bandaríska bankakerfisins.

Þess vegna er stjórnin að prenta peninga. Ef Bandaríkjastjórn lendir í frekari vandræðum þarf hún að prenta út meiri peninga og þá er ljóst hvert stefnir. Í dómsdagsspánni bregðast markaðir illa við stefnu Bandaríkjastjórnar og þeir munu gera það ef hún heldur áfram á þessari braut [...] Hættan er að heimurinn klofni í blokkir þar sem ríki reyni að koma sér undan skjólleysi bandaríkjadalsins [...] Ef lánshæfismat Bandaríkjanna fer undir A eru það sterk skilaboð sem gætu leitt til flótta frá bandarískum skuldabréfum. Sú staða gæti komið upp að Kínverjar segist ekki ætla að kaupa meira af bréfum og fari um leið fram á að fá fé sitt til baka.“

Vaxandi spenna í alþjóðasamskiptum

Jurshevski heldur áfram og leiðir rök að því að þessi atburðarás muni koma niður á heimsviðskiptum og auka núning á milli ríkja og heimsvæða. Sá núningur kunni að þróast yfir í deilur um aðgang náttúruauðlindum. Átök í kjölfarið séu ekki óhugsandi.

Jurshevski segir Kanadamenn áhyggjufulla.

„Það ætti ekki að vanmeta hversu áhyggjufullt fólk er. Kanada gekk í gegnum sína skuldakreppu á tíunda áratugnum sem var tiltölulega væg miðað við það sem gengur á í Evrópu.“

Alex Jurshevski
Alex Jurshevski Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert