Gífurleg óvissa á Írlandi

Andstæðingar írsku ríkisstjórnarinnar mótmæla samvinnunni við AGS á götum Dublin.
Andstæðingar írsku ríkisstjórnarinnar mótmæla samvinnunni við AGS á götum Dublin. Reuters

Sú ákvörðun írsku ríkisstjórnarinnar að leita eftir neyðaraðstoð vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs var tekin mun fyrr en flestir áttu von á, að mati Elaine Byrne, aðjúnkts við Trinity College í Dublin og dálkahöfundar hjá Irish Times. Hún segir almenning mjög ósáttan við framgöngu stjórnarinnar.

„Hlutirnir breytast dag frá degi. Minni stjórnarflokkurinn [Græni flokkurinn] ákvað að yfirgefa stjórnina og boða til þingkosninga í janúar eftir að fjárlögin hafa verið lögð fram á þinginu. Þá hafa óháðir þingmenn sem fylgt hafa stjórninni að máli lýst því yfir að þeir styðji ekki stjórnina lengur. Þessu til viðbótar af þingmenn í flokki Brian Cowens forsætisráðherra farið fram á afsögn hans. Staða stjórnarinnar var óviss en nú er hún jafnvel enn óvissari. Það bjóst enginn við að hún yrði svo óstöðug svo fljótt.“

Spáir stjórnarandstöðunni sigri

- Að því gefnu að kosningar fari fram í janúar, hver verður útkoman?

„Stjórnarandstaðan mun sigra. Útkoman verður stjórn Verkamannaflokksins og Fianna Fáil.“

- Er byltingarástand í vændum?

„Eins og ég segi breytast hlutirnir dag frá degi. Ég er ekki sannfærð um að sú verði raunin. Það hafa verið fá mótmæli. Námsmenn mótmæltu og í gær var efnt til mótmæla fyrir framan nokkrar stjórnsýslubyggingar í Dublin en þar voru á ferð hópar yst á vinstrikantinum. Fólk er mjög reitt en ég er ekki viss um hvernig það muni láta þá reiði í ljós.“

Traustið á stjórnvöldum horfið

- Þú hefur skrifað mikið um félagslegt réttlæti? Hver er þín skoðun á því að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að þiggja neyðaraðstoð?

„Ég er mjög reið yfir því að stjórnvöld skuli hafa logið að okkur. Stjórnin sagði að hún myndi ekki leita aðstoðar. Dómsmálaráðherrann notaði orðið „skáldskapur“ þegar hann lýsti umræðu um mögulega samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í síðustu viku. Viku síðar er komið í ljós að stjórnin tók ákvörðun um að þiggja þessa aðstoð.

Almenningur er mjög ringlaður og óviss um framtíðina. Fólk finnur fyrir miklu óöryggi. Stjórnvöldum hefur mistekist að koma boðum til kjósenda og er nú svo komið að almenningur treystir þeim ekki lengur. Við horfum fram á mjög erfið fjárlög en óvíst er hvort stjórnin hafi afl til að koma þeim í gegn.“

Fjölmenn lágstétt að verða til?

- Erum við að fara á horfa fram á, svo ég orði það umbúðalaust, lágstétt fátækra Íra?

„Gjáin á milli ríkra og fátækra á Írlandi hefur alltaf verið sláandi. Ójöfnuðurinn er því þegar sláandi á Írlandi. Við vitum ekki hvað mun gerast á Írlandi. Hlutirnir breytast stöðugt. Ég tel að eftir að við sjáum hversu mikið verður skorið niður í fjárlögunum í desember munum við sjá afleiðingarnar af þeirri stefnu sem hefur verið mótuð á síðustu tveimur árum.“ 

- Mun kreppan hafa viðvarandi áhrif á írskt samfélag?

„Já. Traust á stjórnmálamönnum er ákaflega lítið. Mikið af ungu fólki er að flytjast af landi brott. Við eigum eftir að sjá hvernig fjárlögin líta út en það er morgunljóst að sá niðurskurður sem rætt er um mun óhjákvæmlega hafa alvarleg áhrif á félagslega samheldni á Írlandi.

Írska stjórnin sagði á sunnudag að hún þyrfti að sækja 15 milljarða evra fyrir 2014. Hún hyggst gera það með því að draga úr útgjöldum um 10 milljarða evra og með því að sækja 5 milljarða evra með skattahækkunum. Þetta verður mjög erfitt en felur þó í sér tækifæri til að breyta hlutunum á Írlandi og vonandi komumst við út úr þessu sem betra þjóðfélag.“

Aðspurð hvort hún telji að Írar beri að kasta evrunni og taka upp írska pundið á ný segir Byrne að fáir ef nokkrir Írar haldi þeirri skoðun á lofti. „Reiðin beinist ekki að Evrópusambandinu heldur að írskum stjórnvöldum,“ segir Byrne.

Dr. Elaine Byrne hefur skrifað um kreppuna á Íslandi í …
Dr. Elaine Byrne hefur skrifað um kreppuna á Íslandi í pistlum sínum í The Irish Times. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert