Segja Suður-Kóreu hafa byrjað

Norður-kóreskir hermenn skammt frá landamærum Kína í morgun.
Norður-kóreskir hermenn skammt frá landamærum Kína í morgun. Reuters

Stjónvöld í Norður-Kóreu segja, að suður-kóreski herinn hafi skotið fyrst yfir landamærin í Gulahafi í morgun. Norður-Kóreumenn létu sprengjum rigna yfir eyju suður-kóreumegin við landamærin og létu tveir suður-kóreskir hermenn lífið og margir særðust. Óttast er að stríð geti brotist út milli ríkjanna.

„Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir okkur skaut Suður-Kórea tugum handsprengja klukkan 13 (...) og við höfum svarað af hernaðarmætti," sagði í yfirlýsingu frá norður-kóreska hernum, sem norður-kóreska fréttastofan KCNA birti í dag.

Suður-Kóreumenn segja hins vegar, að Norður-Kóreumenn hafi gert árás klukkan 14:34 að staðartíma og varpað 200 sprengjum á suður-kóresku eyjuna  Yeonpyeong. Talsmaður suður-kóreska hersins segir, að árásinni hafi verið svarað með því að varpa 80 sprengjum á Norður-Kóreu. 

Suður-kóreskir hermenn voru við æfingar á eyjunni þegar árásin var gerð. Norður-Kóreumenn munu hafa látið stjórnvöld í Suður-Kóreu vita í gær, að þeir litu á æfingarnar sem ögrun. 

Catherine Ashton, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, fordæmdi sprengjuárás Norður-Kóreumanna í dag og hvatti þarlend stjórnvöld til að auka ekki á spennu á svæðinu.  

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í dag, að mikil hætta stafaði af átökum Kóreuríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert