Sprengjum varpað á Suður-Kóreu

Her Suður-Kóreu á æfingu fyrir skömmu
Her Suður-Kóreu á æfingu fyrir skömmu Reuters

Norður-kóreskum sprengjum var í morgun varpað á eyju sem tilheyrir Suður-Kóreu með þeim afleiðingum að heimili urðu fyrir skemmdum og íbúar særðust. Haft er eftir íbúa á eyjunni Yeonpyeong, sem liggur nærri umdeildum landhelgislínum á Gulahafi, að um 50 sprengjur hafi lent á eyjunni og tylft húsa standi í ljósum logum.

Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu staðfestir að sprengjusveit norður-kóreska hersins hafi staðið fyrir ólöglegri árás  sem hersveitir Suður-Kóreu hafi svarað samstundis með gagnárás í varnarskyni. Stjórnvöld hafa virkjað hæsta viðbúnaðarstig á friðartímum. Íbúar voru beðnir um að yfirgefa heimili sín og leita í skjól.  Óljóst er hvort einhverjir féllu í sprengingunum. Myndskeið sem sýnd voru í sjónvarpi sýna reykjarkóf eldtungur teygja sig til himins á eyjunni.

Samkvæmt BBC var boðað til skyndifundar æðstu leiðtoga Suður-Kóreu í neðanjarðarbyrgi í Seoul í kjölfar árásarinnar. Mikil spenna hefur ríkt við landamærin á milli Norður- og Suður-Kóreu síðustu mánuði vegna kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreumanna og banvænni árás þeirra á suður-kóreskt herskip í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert