Kim Jong-un, arftaki Kim Jong-il, leiðtoga Norður-Kóreu, fyrirskipaði árásir á suður-kóreska herinn í nótt til að þjappa hernum saman og herða tök sín á valdataumunum. Þetta er mat Zhang Liangui, sérfræðings í málefnum N-Kóreu við Central Party School, háskóla á vegum Kínastjórnar í Peking.
Eins og komið hefur fram gerði herinn í Norður-Kóreu árás á litla eyju handan landamæranna í Gulahafi í nótt með þeim afleiðingum að tveir suður-kóreskir hermenn létu lífið og nokkrir særðust.
Mark Fitzpatrick, sérfræðingur við hugveituna International Institute for Strategic Studies (IISS) í Lundúnum, tekur í svipaðan streng og Zhang.
Tengist árás á herskip
Þannig segir Fitzpatrick í samtali við fréttastofu AFP að líkt og þegar norður-kóreski herinn sökkti herskipinu Cheonan í mars sl., með þeim afleiðingum að 46 suður-kóreskir sjóliðar fengu vota gröf, sé erfitt að draga aðra ályktun en þá að atvikin tengist fyrirhugaðri valdatöku Kim Jong-un.
Þá segir hann að Norður-Kórea vilji með þessu reyna að þvinga Suður-Kóreustjórn aftur að samningaborðinu vegna deilna um hvar beri að draga landhelgismörkin í Gulahafi.
Með árásinni í nótti vilji kommúnistastjórnin í Pyongyang sýna grönnum sínum að þeir þurfi að semja, ellegar muni frekari árásir fylgja í kjölfarið.
Litlar líkur á stríði
Spennan á Kóreuskaga jókst verulega í kjölfarið en Fitzpatrick telur litlar líkur á að hún þróist út í vopnuð átök.
Athygli umheimsins hefur verið á Norður-Kóreu undanfarna daga en í síðustu viku uppgötvaði fulltrúi Bandaríkjastjórnar að tækni Norður-Kóreumanna til þess að auðga úran er mun fágaðri en talið hefur verið.
Er því talið að ef rétt reynist geti stjórnin í Pyongyang komið sér upp mun stærra kjarnavopnabúri en fram að þessu, að því er fram kemur á vef Sydney Morning Herald.