Efnaður múslímaklerkur var í dag dæmdur í 4 ára fangelsi í Indónesíu fyrir að nauðga 12 ára gamalli stúlku sem hann kvæntist óformlega. Klerkurinn, Pujiono Cahyo Widiyanto, er 45 ára og vakti miklar deilur um allt landið þegar hann ákvað að kvænast hinni 12 ára gömlu Lutfiana Ulfa árið 2008.
Hann var í dag fundinn sekur um að brjóta lög gegn kynlífi með börnum undir lögaldri og dæmdur í 4 ára fangelsi. Stúlkan er sögð hafa öskrað upp yfir sig þegar hún heyrði dóminn lesinn upp. Lögmaður Widiyanto segir að dómnum verði áfrýjað. Widiyanto sagði sér til varnar í réttarhöldunum að stúlkan hefði þegar náð kynþroska þegar hann kvæntist henni í óformlegri athöfn. Segir hann að athafnir hans með henni séu viðurkenndar af Íslam.
Samræðisaldur í Indónesíu er 16 ár fyrir konur og 18 fyrir karla. Ströng lög eru gegn barnaníði í Indónesíu, en óskráð hjónbönd milli eldri manna og barnungra stúlka eru hinsvegar algeng í sveitahéruðum.