Merkel segir nauðsyn að setja markaðnum takmörk

Angela Merkel kanslari Þýskalands.
Angela Merkel kanslari Þýskalands. THOMAS PETER

Angel Merkel kanslari Þýskalands sagði í dag að Evrópusambandið verði að hafa hugrekki til að setja markaðnum takmörk og tryggja að fjárfestar í ríkisskuldabréfum beri sjálfir hluta af áhættunni.

„Eru stjórnmálamenn nægilega hugrakkir til þess að láta þá sem græða taka á sig hluta af áhættunni?" spurði Merkel í ræðu á þýska þinginu í dag. „Þetta snýst um forgangsrétt ríkisins, um að setja markaðnum takmörk."

Þá sagði Merkel einnig að Þýskaland muni skoða jákvæðum hug umsókn Írlands um efnahagslega aðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem sögð er að muni nema allt að 85 milljörðum evra. „Við höfum áður sagt að það sé nauðsynlegt að tryggja stöðugleika evrunnar sem heildar og þar af leiðandi munum við skoða umsókn Írlands með jákvæðum hug," sagði Merkel. Engu að síður tók hún fram að þetta væri þeim takmörkunum sett að setja yrði skýrt fram þau skref sem landið þyrfti að taka til að feta brautina í átt að stöðugleika.

Í gær varaði Merkel við því að staða evrunnar væri nú „sérstaklega alvarleg" vegna hins viðkvæma ástands á Írlandi.  „Ég vil ekki mála of dramatíska mynd, en ég vil þó segja að fyrir ári síðan hefðum við aldrei getað ímyndað okkur þá rökræðu sem við þurftum að taka í vor og þær aðgerðir sem við höfum þurft að grípa til," sagði Merkel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert