Barack Obama Bandaríkjaforseti fordæmir harðlega árás Norður-Kóreu á eyjuna Yeonpyeong í Suður-Kóreu og segir að Bandaríkin muni verja bandamenn sína. Í viðtali við ABC News í nótt sagði Obama að Norður-Kórea væri „alvarleg og vaxandi ógn sem nauðsynlegt er að eiga við".
Árásin nærri umdeildum landhelgislínum í Gulahafi hefur einnig verið fordæmd af Rússum, Japönum og Evrópusambandinu. Suður-Kórea svaraði með gagnrárás og hótaði að senda flugskeyti yfir landamærin ef „fleiri ögranir" verði. Obama lýsti Suðu-Kóreumönnum sem mikilvægum bandamönnum og sem hornsteini bandarískra öryggisaðgerða í Kyrrahafi.
Obama kallaði eftir því að helstu bandamenn Norður-Kóreu, Kínverjar, kæmu þeim skilaboðum til yfirvalda í Pyongyang að það væru „alþjóðlegar reglur sem þeir verði að fara eftir". Obama og forseti Suður-Kóreu, Lee Myung-bak, ræddust við í síma í gær og ákváðu að halda sameiginlega heræfingu á næstu dögum til að undirstrika styrk sambands þeirra, samkvæmt yfirlýsingu frá Hvíta húsinu. Um 28.000 bandarískir hermenn eru í Suður-Kóreu.