Raunveruleg hætta á að evrusvæðið liðist í sundur

Iveta Radicova, forsætisráðherra Slóvakíu.
Iveta Radicova, forsætisráðherra Slóvakíu. RADOVAN STOKLASA

Evrusvæðið á það á hættu að riðlast í sundur ef bankarnir verða ekki látnir deila byrgðum kreppunnar með skattgreiðendum, að mati fjármálaráðherra Slóvakíu. Hann segir ástandið afar erfitt, afar flókið og að hættan á klofningi evrusvæðisins sé raunveruleg. Slóvakar neituðu fyrir stuttu að taka þátt í björgunarpakka Evrópusambandsins til Grikkja.

Núverandi ríkisstjórn Slóvakíu, sem komst til valda í júlí á þessu ári, hefur kallað ítrekað eftir því að fjárfestar fái að finna fyrir sársaukanum sem fylgi björgunaraðgerðum á evrusvæðinu. Slóvakar telja björgunaraðgerðirnar á Grikklandi vera mistök og hættulegt fordæmi sem hneppi ríkisstjórnir Evrópu í „gíslingu" fjármálamarkaða.

„Ef við höldum áfram með þessum hætti þá erum við farin að nálgast pýramídaviðskipti," hefur vefmiðillinn EUobserver eftir forsætisráðherra Slóvakíu, Iveta Radicova að loknum ríkisstjórnarfundi í gær, þar sem vandi Írlands var til umræðu. Hún varar við því að áframhaldandi skuldasöfnun muni á endanum leiða til þess að kerfið hrynji eins og spilaborg.

„Enn einu sinni er ætlast til þess að skattgreiðendur borgi reikninginn. Enn einu sinni er verið að bjarga bönkunum," sagði Radicova við fjölmiðla og gaf til kynna að þess yrði ekki langt að bíða að Spánn og Portúgal fylgdu á eftir. Radicova sagði að fjármálastofnanir hefðu enga ástæðu til að breyta háttalagi sínu nema þær væru látnar taka ábyrgð þegar allt væri komið í óefni.

Angela Merkel kanslari Þýskalands talaði einnig um það í gær að stjórnmálamenn Evrópusambandsins yrðu að hafa hugrekki til að  setja markaðnum takmörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert